Ragnheiður Júlíusdóttir, 1998
Örlítið um skipulagða kennslu.
Skipulag er það sem hentar einhverfum einstaklingum best. Þessi skipulagða kennsla má rekja til Teacch líkansins í Norður Karólínu í Bandaríkjunum. Teacch er skammstöfun sem stendur fyrir; Treatment og Autistic and related Communications handicapped Children. Á íslensku er því talað um: Meðferð og kennsla einhverfra barna og barna með skyldar/líkar boðskiptatruflanir. Í Norður-Karólínu er veitt margskonar þjónusta við einstaklinga með einhverfu allt frá greiningu til fullorðinsára.
Undanfarin ár hefur Umsjónarfélag einhverfra staðið fyrir námskeiðum um skipulögð vinnubrögð og kennslu þar sem hugmyndafræði Teacch er notuð. Í dag eru því margir skólar og stofnanir sem nýta sér skipulagða kennslu fyrir einstaklinga sem þurfa á sérstuðningi og sérkennslu að halda. Skipulögð kennsla felur það í sér að gera heiminn skiljanlegri í augum skjólstæðinga okkar og minna ruglingslega. Þannig auðveldum við nemendum okkar nám, gerum þau sjálfstæðari og minnkum hegðunarvandamál. Skipulögð kennsla felur í sér: Ytra skipulag, daglegt skipulag, stundaskrá , skipulagt vinnukerfi, endurtekningar og sjónrænar vísbendingar .