ADHD

Á heimasíðu ADHD samtakanna er að finna mjög góða útskýringu á því hvað Athyglisbrestur og ofvirkni – ADHD er.

Athyglisbrestur og ofvirkni
Athyglisbrestur og ofvirkni, oft kallað ADHD í daglegu tali, er taugaþroskaröskun sem kemur yfirleitt snemma fram eða fyrir 7 ára aldur og getur haft víðtæk áhrif á daglegt líf, nám og félagslega aðlögun. Athyglisbrestur og ofvirkni er algerlega óháð greind. ADHD er alþjóðleg skammstöfun og stendur fyrir “Attention Deficit Hyperactivity Disorder” eða athyglisbrest og ofvirkni.

Algengi / tíðni ADHD
Nýjar rannsóknir sýna að 5-10% af hundraði barna og unglinga glíma við ofvirkni sem þýðir að 2-3 börn með ADHD gætu verið í hverjum bekk að meðaltali í öllum aldurshópum. Auk þess geta börn haft vægari einkenni. Í hópi barna með ADHD eru þrír drengir á móti hverri einni stúlku. Nýjar rannsóknir benda þó til að fleiri stúlkur séu með ADHD en talið hefur verið, en þær koma síður til greiningar. Nýjar bandarískar rannsóknir sýna 4,4% algengi ADHD hjá fullorðnum. 

Hvað veldur ADHD ?Orsakir ADHD eru líffræðilegar og því er ekki um að kenna umhverfisþáttum, t.d. slöku uppeldi eða óheppilegum kennsluaðferðum. Rannsóknir benda til að orsaka sé að leita í truflun í boðefnakerfi heila á stöðum sem gegna mikilvægu hlutverki í stjórn hegðunar. Erfðir gegna mikilvægu hlutverki, talið er að erfðir útskýri 75-95% ADHD einkenna. ADHD getur einnig komið fram í tengslum við sjúkdóma eða slys, t.d. höfuðáverka eða áföll á meðgöngu, og hún fylgir oft öðrum þroskatruflunum.

Hvernig lýsa einkenni ADHD sér? Þrír meginflokkar einkenna koma fram:
Athyglisbrestur kemur fram í því að barnið eða unglingurinn á erfitt með að einbeita sér að viðfangsefnum sínum, sérstaklega ef verkefnið krefst mikillar einbeitingar. Heimanám er þeim oft mjög erfitt.  Þau eiga erfitt með að koma sér að verki, eru auðtrufluð og oft hvarflar athyglin í miðju kafi að einhverju öðru og verkefnið gleymist. Athyglisbresti fylgir yfirleitt gleymska og hlustunin er ekki góð. Skipulagserfiðleikar eru nær alltaf fylgifiskar athyglisbrests og oft er tímaskyni áfátt. Þó er athyglisbresturinn ekki alltaf til staðar og ef verkefnið er nógu spennandi og tilbreytingaríkt, t.d. tölvuleikir, getur komið fram nánast ofureinbeiting þannig að barnið dettur hreinlega úr sambandi við umhverfi sitt. Athyglisbrestur getur haft margvíslegar afleiðingar á námshæfni en hann kemur oft ekki í ljós fyrr en barnið byrjar í skóla og meira fer að reyna á athyglina. Hreyfióróleiki lýsir sér þannig að börnin eiga erfitt með að sitja kyrr. Þau iða í sæti og eru fiktin og stöðugt á ferð og flugi. Þau tala oft mikið og liggur oft hátt rómur. Hreyfióróleiki er oft mest áberandi á yngri árum.  Hvatvísi kemur þannig fram að börn eiga erfitt með að bíða, þau grípa fram í og ryðjast inn í leiki og samræður annarra. Þeim er hætt við að framkvæma og gera hluti án þess að hugsa um afleiðingar gerða sinna en það kemur þeim bæði í vandræði og hættu. Mikilvægt er að hafa í huga að einkennin geta verið mismunandi og mismikil hjá ólíkum  einstaklingum og eru breytileg eftir aldri. Hreyfióróleikinn er mest áberandi á yngri árum. Oft dregur úr einkennum hreyfióróleika á unglingsárunum en  í staðinn kemur innri órói. Athyglisbrestur án ofvirkni (ADD). Sum börn og unglingar eru með mikinn athyglisbrest en óveruleg einkenni hreyfióróleika og hvatvísi. Í þeim tilvikum er um að ræða athyglisbrest án ofvirkni. Þau eru oft mjög hæg og róleg og því er oft talað um vanvirkni hjá þeim. Gera má ráð fyrir að þessi börn og unglingar komi síður til greiningar en börn með mikinn hreyfióróleika sem eru hvatvís. Athyglisbrestur án ofvirkni getur þó haft alvarlegar afleiðingar á námshæfni og ákveðin gerð minnistruflana hrjáir þessa einstaklinga ásamt kvíða og depurð. Tíðni sértækra námserfiðleika á borð við lestrar- og málerfiðleika er há.

Fylgiraskanir
Börn og unglingar með athyglisbrest með/án ofvirkni eiga einnig oft við aðra erfiðleika að stríða. Ákveðinn hópur er t.d. með sértæka námsörðugleika og alvarlegir félags- og hegðunarerfiðleikar eru ekki óalgengir. Þeim er mjög hætt við að þróa með sér mótþróahegðun. Kvíði og depurð eru algeng og mörg þessara barna sýna einkenni áráttuhegðunar. Dæmi um þá hegðun er ofurást á t.d. tölvuleikjum sem mestöllum  frítíma er varið í og viðkomandi sýnir óþol og skapofsa ef hann kemst ekki strax í tölvuna sína. Í þessu tilviki tengist hegðunin hömluleysi og hvatvísi. Félagsleg samskipti ganga oft illa, bæði gagnvart jafnöldrum og fullorðnum. Hætta er á félagslegri einangrun sem stuðlar að slakri sjálfmynd og vanlíðan. Því er mikilvægt að þjálfa félagsfærni og aðstoða þessi börn og unglinga í samskiptum við aðra.

ADHD og nám
Þótt ekki sé um beina sértæka námsörðugleika að ræða má rekja ýmis konar námserfiðleika barna og unglinga með athyglisbrest og ofvirkni beint til veikleika þeirra. Þótt þau eigi ekki í beinum lestrarörðugleikum ná þau oft illa innihaldi textans og fylgjast illa með, hugurinn hvarflar frá lestrinum og minnistækni er slök. Skipulögð frásögn bæði í máli og riti er þeim oft erfið og mörg glíma við skriftarerfiðleika. Þótt börnin hafi oft ágætis stærðfræðiskilning veldur ónákvæmni þeirra skekkjum og þeim gengur illa að beita reikningsaðgerðum og höndla óhlutbundin stærðfræðihugtök. Ómeðhöndluð ofvirkni hindrar þessa einstaklinga í að nýta sér greind sína.

Horfur
Áður fyrr var talið að ADHD hyrfi með aldrinum en rannsóknir hafa sýnt að svo er ekki. Nýjar erlendar fylgikannanir sýna að 50-70% þeirra sem greinast með ADHD í bernsku eru enn með einkenni á fullorðinsárum. Hvernig þeim vegnar á fullorðinsárunum er mjög háð viðeigandi meðferð á yngri árum og hversu snemma hún fékkst. Þættir eins og greind, alvarleiki einkenna og félagsleg staða skipta einnig máli. Viss hætta er á að hluti hópsins leiðist út í andfélagslega hegðun og vímuefnaneyslu á unglingsárum fáist ekki rétt meðferð.

 

Meðferð
ADHD er ekki sjúkdómur og því er útilokað að lækna það. Sem betur fer eru þó vel þekktar leiðir til að draga úr einkennum og halda þeim í skefjum þannig að þau valdi ekki alvarlegri félagslegri og hugrænni röskun. Meðferð þarf að byggjast á læknisfræðilegri, sálfræðilegri og uppeldis- og kennslufræðilegri íhlutun ásamt hegðunarmótandi aðferðum.  Mikilvægt er að allir sem koma að máli barns með ADHD hafi grunnþekkingu á einkennum og afleiðingum ADHD. Fræðsla um ADHD fyrir foreldra, kennara og aðra er því með því fyrsta sem huga þarf að. Þá eru meiri líkur á að barnið mæti skilningi í nánasta umhverfi.

  • Foreldrar þurfa því að fá fræðslu um ADHD og þjálfun í heppilegum uppeldisaðferðum
  • Kennarar þurfa jafnframt að fá fræðslu um ADHD og þjálfun í viðeigandi kennsluaðferðum
  • Lyfjameðferð getur auk þess skilað bæði betri líðan og betri námslegri og félagslegri stöðu hjá barni með ADHD

Bestur árangur næst með samþættri meðferð sem þarf að hefjast sem fyrst. Óhætt er að fullyrða að þverfagleg teymisvinna eða samstarf allra þeirra fagaðila og sérfræðinga sem koma að máli barns með ADHD í gegnum reglulega fundi með foreldrum er æskileg og skilar auknum árangri í meðferð við ADHD.

Uppeldi barna og unglinga með ADHD
Uppeldi barna og unglinga með ADHD er oft krefjandi og reynir því töluvert á bæði foreldra og aðra, t.d. kennara.  Góð sjálfsímynd er forsenda velgengni og því er lykilatriði að stuðla að því að börnin bíði ekki stöðuga ósigra í daglegu lífi. Börn og unglingar læra ekki af skömmum og neikvæðu viðmóti. Þetta brýtur niður sjálfsmyndina og eykur hættu á kvíða og depurð. Mikilvægt er að leita eftir sterkum hliðum en ekki að einblína á veikleika. Börn og unglingar með ADHD þurfa skýra ramma í uppeldinu, fáar en einfaldar reglur og ótvíræð og einföld fyrirmæli sem fylgt er eftir. Fyrst og fremst þarf þó jákvætt viðmót, hrós og viðurkenningu fyrir það sem vel er gert. Skilningur á eðli ADHD og samvinna þeirra sem umgangast barnið eða unglinginn, hvort sem það er heima eða utan heimilis, í skóla eða leikskóla eða í tómstundastarfi, er forsenda þess að hægt sé að takast á við vandann og skapa þeim og fjölskyldum þeirra gott líf.

Hvert er hægt að leita?

  • Heimilislæknir eða heilsugæslustöð er oft fyrsta skrefið. Þar er ákvörðun tekin í samráði við foreldra um hvort ástæða sé til að vísa áfram til sérfræðinga til nánari athugunar. Það geta verið barnalæknar eða barna- og unglingageðlæknar, sálfræðingar eða aðrir sérfræðingar með sérþekkingu á þessu sviði.

 

  • Sérfræðiþjónusta leikskóla eða sálfræði- og sérfræðiþjónusta grunnskóla.

 

  • Miðstöð heilsuverndar barna. Þar er starfrækt sérstakt greiningarteymi fyrir börn, sem hefur sérstaka þekkingu og reynslu af vinnu með börnum og greiningu á þroskafrávikum. Tilvísunar er þörf. MHB er að Þönglabakka 1, sími 585-13 50,  www.hr.is

 

  • Fjölskyldumiðstöðin að Háaleitisbraut 13, þar er bæði ráðgjöf og hópstarf fyrir unglinga og fjölskyldur í vanda.  Sími 511-15 99,  www.barnivanda.is

 

  • Félagsþjónusta sveitarfélaga getur veitt börnum og fjölskyldum þeirra félagslega aðstoð s.s. persónulegan ráðgjafa og stuðningsfjölskyldu.

 

  • Barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Tilvísunar er þörf. Dalbraut 12, sími 543-4300,  www.landsspitali.is.

 

  • Eirð sf. fræðslu-og ráðgjafarþjónusta um uppeldi og geðheilsu barna og unglinga.  Þar starfar þverfaglegt teymi sérfræðinga sem kemur að greiningu og veitir ráðgjöf vegna ADHD. Eirð er með fræðslu fyrir foreldra og fagfólk auk sérhæfðra námskeiða fyrir foreldra barna með ADHD. Eirð er að Álftamýri 1-5. Sími 530-8360, netfang eird@isl.is.

 

  • Ráðgjafarmiðstöðin Sjónarhóll er fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir. Þar starfa ráðgjafar sem eru sérhæfðir í málefnum barna með sérþarfir og fjölskyldna þeirra. Þjónustan er ókeypis og tilvísunar er ekki þörf. Sjónarhóll er að Háaleitisbraut 13, sími 535-1900, www.sjonarholl.net.

 

  • Ennfremur er hægt að leita til annarra sjálfstætt starfandi fagaðila s.s. sálfræðinga, félagsráðgjafa, geðhjúkrunarfræðinga, listmeðferðarfræðinga, sérkennara, iðjuþjálfa, námsráðgjafa og heyrnar- og talmeinafræðinga.

Heimild:
Heimasíða ADHD samtakanna.

Vefslóð: http://adhd.is/default.asp?sid_id=26357&tre_rod=004|&tId=1

Nú hefur verið gefin út handbók/flettirit um ADHD sem ætlað er að auuka skilning þeirra sem starfa með nemendum með ADHD, einkum á grunnskólastigi þar sesm bent er á leiðir til að mæta þörfum nemenda. Bókinni er dreift endurgjaldslaust í alla grunnskóla en  Mennta- og Menningarmálaráðuneytið og Velferðarráðuneytið standa straum af kostnaði.

Hér má nálgast bókina:

ADHD og farsæl skólaganga

Comments are closed.