Um félagshæfnisögur

Félagshæfnisögur eru góð aðferð til að auka skilning á athöfnum og aðstæðum. Hver athöfn og aðstæður eru í formi sjónrænna upplýsinga, mynda og með einföldum texta. Sögurnar eru skrifaðar með það í huga að einstaklingur skilji betur og geti brugðist við hinum margvíslegum aðstæðum sem koma upp í lífinu.

Markmið
Félagshæfnisögurnar eru stuttar sögur sem lýsa aðstæðum, bæði með texta og myndum, sem einstaklingurinn á erfitt með að skilja í daglegu lífi sínu. Markmið með sögunum er að lýsa komandi atburðum og/eða aðstæðum til að draga úr kvíða og áhyggjum eða kenna viðeigandi hegðun í ákveðnum aðstæðum.
Svo sem eins og:
Af hverju þarf ég að fara að sofa?
Hvernig á að haga sér í bíó?
Hvernig á ég að biðja um aðstoð?
Hvernig verður dagurinn hjá mér?
Hvernig á að haga sér við matarborðið?
Hvernig á ég að fara að því að koma inn í leikskólanum?

Sögurnar eru skrifaðar annað hvort í 1. persónu (ÉG) eða 3. persónu (Nafn barnsins). Það er einstaklingsbundið hvaða form hentar. Sögurnar eru skrifaðar af þeim sem þekkja einstaklinginn og vita um hindranir hans. Gott er að vinna sögurnar með viðkomandi einstaklingi ef hægt er. Við sögugerðina er æskilegt að kynna sér aðstæður sem best því þannig getum við sett inn atriði sem við vitum að geta valdið erfiðleikum, kennum gildandi reglur í aðstæðum og auðveldum einstaklingnum að takast á við breytingar.

Atriði sem ber að hafa í huga varðandi aðstæður eru:
Hvar atburðurinn á sér stað?
Hverjir eru þar?
Hve lengi?
Hvernig byrjar það og endar?
Hvað gerist?
Hvers vegna?

 

Comments are closed.