TEACCH

TEACCH – er skammstöfun sem stendur fyrir Treatment and Education of Autistic and related Communications Handicapped Children, eða meðferð og kennsla barna með einhverfu og skyldar boðskiptatruflanir.

Inngangur
TEACCH aðferðin (skipulögð kennsla/þjálfun) stendur fyrir Treatment and education of Autistic and related communication handicapped children eða á íslensku meðferð og kennsla einhverfra og annarra með skyldar boðskipta-hamlanir.

TEACCH-aðferðin á rætur sínar að rekja til Norður-Karólínu og felur í sér mjög nákvæmt skipulag á annars vegar tíma og hinsvegar verkefnavinnu sem hjálpar við að gera heiminn skiljanlegri í augum einstaklingsins og minna ruglingslegan. Þannig auðveldum við honum nám, gerum einstakling sjálfstæðari og minnkum hegðunarvandamál.

Skipulag
Aðferðin tekur tillit til allra þeirra þátta sem mikilvægast er að efla hjá allflestum einstaklingum með einhverfu eða skildar raskanir og er skipulag lykilorðið í TEACCH aðferðinni.

Skipulag felur í sér eftirfarandi þætti
Að ferlið er sjónrænt og greinilegt
Að ferlið sýnir greinilegt upphaf og endi.
Yfirfærsla á námi (að læra í öllum aðstæðum)
Endurtekning (að nota þörfina fyrir reglu)
Sjálfstæði (að geta framkvæmt án stuðnings – virkni)
Foreldravinna (samvinna – þátttaka)

Markmið
Markmiðið með Skipulögðum vinnubrögðum (TEEACH) er að nemendur geti unnið eins sjálfstætt og unnt er. Einstaklingum með röskun á einhverfurófi líður betur í góðu sjónrænu skipulagi og þeir eru einnig líklegri til að skilja og fylgja sjónrænum fyrirmælum fremur en munnlegum. Gott skipulag eykur líka öryggi og sjálfstraust þeirra, gerir þeim kleift bæði að kynnast nýjum athöfum og fá aukið þor til að framkvæma þær.

Skipulögð kennsla
Skipulögð kennsla felur í sér:  Ytra skipulag, daglegt skipulag, stundaská, skipulagt vinnukerfi, endurtekningu og sjónrænar vísbendingar.

1. Ytra skipulag:
Námsumhverfið þarf að vera skipulagt á ákveðinn hátt einstaklingnum til einföldunar. Gæta þarf þess að skipulag námsumhverfisins þarf að vera hannað fyrir hvern og einn einstakling og getur falið í sér eitthvað af eftirfarandi:
Staðsetning hluta í rýminu skiptir miklu máli. Vel skipulagt umhverfi gefur sjónrænar vísbendingar og auðveldar skilning á til hvers er ætlast á hverjum stað í rýminu. Skipuleggja þarf umhverfið þannig að einstaklingurinn sjái hvar hann á að vera við hverja athöfn t.d. hvar á að borða, vinna o.s.frv. Draga þarf úr öðru sjónrænu og heyrnrænu áreiti. Hjálpa einstaklingnum að horfa á aðalatriðin en ekki aukaatriðin.

2. Daglegt skipulag – stundaskrá
Stundaskrár eru undirstaða skipulags í allri vinnu einstaklinga með röskun á einhverfurófi og nauðsynlegt er að einstaklingurinn hafi fasta stundaskrá yfir daginn. Stundaskráin gefur einstaklingnum upplýsingar um hvað hann á að gera, hvenær, hvar og með hverjum. Stundaská getur spannað allt frá hluta úr degi, til viku, verið skrifuð, myndræn eða búin til úr hlutum, allt eftir getu einstaklingsins. Stundaskráin veitir öryggi, dregur úr kvíða og er notuð til að skjólstæðingurinn læri að gera greinarmun á athöfnum og þannig fær hann einnig vísbendingu um tíma. Stundaskráin er ýmist sett upp frá vinstri til hægri eða upp og niður. Ýmis form eru til af stundaskrám: Stundaskrár með hlutatáknum, stundaskrár með myndum, stundaskrár með orðum og myndum og skrifuð stundaskrá. Stundaskráin er einstaklingsmiðuð. Það fer eftir getu hvers og eins hvaða tegund af sjónrænum vísbendingum er á stundaskránni, hversu margar athafnir eru settar á stundaskránna í einu, fer einnig eftir getu einstaklingsins.

3. Skipulagt kerfi í leikaðstæðum eða einstaklingsvinnu
Á svæðinu getur þurft að vera skipulagt sjónrænt kerfi.
Skipulagt vinnukerfi gefur einstaklingnum upplýsingar um:

Hvað á að leika
Hve lengi á að leika
Hvenær er hann búinn að leika
Hvað gerist svo á eftir

Form vinnukerfis í einstaklingsvinnu
Á vinnusvæðinu á hver einstaklingur ákveðið vinnuborð. Þar eru hillur sem kennari raðar þeim verkefnum sem einstaklingurinn á að leysa í það skiptið. Unnið er frá vinstri til hægri og karfa notuð til að skila unnum verkefnum í. Þau verkefni sem búið er að vinna, hverfa því úr hillunni og þannig sér einstaklingurinn hvað hann á eftir að leysa mörg verkefni. Körfurnar eru merktar til að einstaklingurinn viti í hvaða röð hann á að leysa verkefnin. Hann á t.d. að para saman lit við lit, para saman tákn eða orðakerfi er notað til að hann leysi verkefnin í réttri röð.

Einstaklingsmiðuð kerfi
Hvernig veit einstaklingurinn hve mörg verkefni hann á að leysa? (hann sér hversu mörg verkefni eru í hillunni).Hvað á hann að leysa? (Það sem er í körfunni og í þeirri röð sem hans vinnukerfi segir til um).
Hvernig veit hann hvenær hann er búinn að leysa verkefnið? (þegar engin karfa er eftir í hillunni, þá er hann búinn).Hvað gerist þegar hann er búinn að leysa öll verkefnin? (þá fær hann skýr skilaboð um það, t.d. merki um að fara að stundaskrá sinni eða hann umbun).

4. Endurtekning
Með sífelldum endurtekningum fær einstaklingurinn skilning á því sem hann er að gera, hann verður öruggari og sjálfstraust hans eykst.

5. Sjónrænt skipulag
Við kennslu skal nota sjónrænar leiðbeiningar til að leggja áherslu á sjónræna úrvinnslu. Sjónrænar leiðbeiningar einfalda nám, breytingar, yfirfærslu og draga úr heyrnrænu áreiti, verkefnin verða skýr og skipulögð, beina athyglinni að mikilvægu atriði þ.e. því sem skiptir máli, minnkar nauðsyn á nálægð kennara.

Vinnukerfi – Skipulag og uppsetning
Með skipulögðum vinnuverkefnum eru m.a. sjálfstæð vinnubrögð kennd. Við þurfum að velja verkefni við hæfi einstaklingsins. Skilgreina hvað á að kenna og hvaða færni er mikilvæg fyrir einstaklinginn að hafa á valdi sínu. Búin eru til verkefni til að nota við kennsluna. Einstaklingnum er kennt að leysa verkefnið og síðan er verkefnið flutt yfir á vinnusvæðið þar sem einstaklingurinn lærir að vinna það á eins sjálfstæðan hátt og geta hans leyfir. Úthald einstaklingsins eykst smámsaman svo og sjálfstæði og má þá auka kröfurnar með því að bæta við verkefnum sem einstaklingurinn kann.

Með ýmiskonar verkefnum má:
Efla fínhreyfingar og samhæfingu hreyfinga
Efla samhæfingu augna og handa
Auka úthald og einbeitingu
Undirbúa einstaklinginn fyrir frekara nám  og finna sérsvið hans
Kenna verklag
Auka sjálfstæði einstaklingsins og stuðla að betri sjálfsmynd
Draga úr aðgerðaleysi
Gefa einstaklingnum tækifæri til að upplifa það “að gera og geta”

Vinnuverkefni.
Með vinnuverkefnum er komið í veg fyrir að of miklar kröfur séu gerðar til einstaklingsins. Hver og einn fær viðfangsefni á vinnusvæði sem hann ræður við og það eykur líkurnar á að einstaklingurinn hafi áhuga á að leysa verkefnið. Fyrir kennarann er þessi vinna mjög góð. Hann veit nákvæmlega hvað hann er að kenna og til hvers. Hann veit hvað einstaklingurinn kann og hversu mikið úthald hann hefur í verkefnavinnu. Því lengur sem þessi skipulagða verkefnavinna er notuð því sjálfstæðari verða einstaklingarnir og óháðari kennaranum. Auðveldara er fyrir nýttnýja kennara að byrja að vinna þar sem fyrir er vel skipulagt kerfi. Skipuleggja má kennsluna fram í tímann og ekki má gleyma því að verkefnin nýtast mjög vel þegar verið er að viðhalda færni hjá einstaklingi, en oft er það jafnmikilvægt og að kenna nýja færni. Verkefnin auðvelda mat á framförum einstaklingsins

TEACCH byggir á
Að kennari stuðli að sjálfstæði skjólstæðinga sinna.
Að kennari stöðvi hegðun með sjónrænum vísbendingum
Að skoða vel aðstæður nemans, get ekki, vil ekki.
Að kennari gangi fyrir aftan skjólstæðing að svæði.
Að kennsla fari með virkni í huga
Efla boðskipti alls staðar þar sem við á.
Kenna verkefni sem stöðugt sé hægt að breyta.
Stuðla að því að nemandinn ljúki alltaf verki sínu
Skoða vel kennsluaðferðir.
Skoða vel hvernig skjólstæðingurinn lærir
Athuga hvort nemandi ræður við að fá bæði talað orð og bendingar
Athuga vel hvernig nemanda eru sýnd verkefni svo hann læri og geti síðan unnið einn.
Gefa umbun, leita að nýrri umbun
Oft erfitt að byrja á einhverju nýju, leitið leiða til að það gangi vel fyrir nemandann
Vera vakandi yfir nýrri færni og skrá hana
Stundatöflur verða að vera í stöðugri endurskoðun.
Mynd – orð, dagtöflur, vikutöflur, dagbækur.
Málörvun fer fram á öllum svæðum, alltaf að gera til skiptis og muna biðtíma og gefa nemandanum tíma til að svara – já.
Allar aðstæður þarf að skipuleggja á myndrænan hátt, líka útivist.

Hvernig á að kenna nýja færni
Öll þrep í kennsluferlinu eiga að vera sjónræn.
Sjálfstæði nemandans í öllum aðstæðum
Stöðug umhugsun um kennslufræði.
Reglur og venjur eru afar mikilvægar því að þær gefa öryggi og styrk.
Fyrst og svo reglan
Vinstri til hægri reglan -  Uppi – niður reglan
Blanda saman vinstri/hægri, uppi/niður.
Fara að stundartöflu eftir hvert verk
Fylgja reglum í öllum aðstæðum
Mikilvægt að gefa skýr fyrirmæli, skrifleg eða myndræn.
Gefa leiðbeiningar strax um hvernig skuli haga sér til að koma í veg fyrir að þurfa að leiðrétta.

Í einstaklingsvinnu eru ný verkefni lögð inn/ný færni kennd.  Vinnukerfin þurfa að vera í stöðugri þróun t.d. frá hinu einfalda yfir í skriflegar upplýsingar á blaði eða bók. Staðsett á borði nemandans.

Nauðsynlegt að huga að:
Hvernig get ég kennt/sýnt svo hann geti þetta einn
Hversu miklar upplýsingar þarf hann til að geta þetta einn
Hvað er það sem truflar hann
Hvernig er einbeiting hans
Hvernig lærir hann

Einstaklingsvinnukerfi – sjálfstæð vinna:
Tilgangur með vinnukerfi er að vinnukerfið gefi skjólsæðingnum fjórar upplýsingar:
Hvaða verkefni á að leysa
Hve lengi á að gera það
Hvenær er því lokið og hvað gerist næst… þegar ég er búinn?
Hvaða umbun/hvatning?

Fjóla Þorvaldsdóttir sérkennslustjóri Furugrund.

 


Comments are closed.