Tákn með tali


tmt.is


Hér á eftir er í stuttu máli gerð grein fyrir tjáningarmátanum táknum með tali (TMT), m.a. grundvallarþáttum og helsta ávinningi fyrir notendur. Þessi aðferð var þróuð af dönunum Lars Nygård og Marianne Bjerregaard.


Fyrir hverja


Tjáningarmátinn tákn með tali er einkum ætlaður börnum sem heyra innan eðlilegra marka en ná ekki að tileinka sér skilning á máli og/eða talmál á hefðbundinn hátt vegna frávika í þroska eða fötlunar. Tekið skal fram að einstaklingar á öllum aldri geta nýtt sér tákn með tali.

Tákn með tali – uppbygging og notkun: 6 grundvallarþættir
Náttúruleg tákn. Byggt er á náttúrulegri tjáningu, þ.e. svipbrigðum og látbragði. Þá er talað um náttúruleg tákn. Dæmi: að greiða sér, að borða, að vera heitt/kalt.
Samræmd tákn. Til viðbótar við náttúruleg tákn eru notuð samræmd tákn, oft aðlöguð, fengin að láni úr táknmáli heyrnarlausra.
Regla. Táknin á alltaf að nota með tali – aldrei ein sér. Að öðrum kosti mun barnið ekki fá tækifæri til að tileinka sér talað mál.
Markmið. Stefnt er að því að barnið nái eins mikilli leikni í að nota talmál og nokkur kostur er. TMT er gjarnan hugsað sem tímabundinn stuðningur, eða brú, yfir í talað mál.
Umhverfið. Markviss notkun TMT í umhverfi barnsins, heima, í skóla og annars staðar þar sem barnið dvelur er lykilatriði.
Samvinna. Samvinna viðkomandi aðila þarf að vera mikil og vel samhæfð.

Ávinningur strax við upphaf notkunar
  • Táknin eru myndræn og því auðveldara fyrir barnið að skilja hvað við er átt.
  • Táknin auðvelda barninu jafnframt að gera sig skiljanlegt.
  • Það er auðveldara að tala með höndunum en með talfærunum og barnið getur því tjáð sig um þarfir og óskir burtséð frá erfiðleikum við að beita tali.

Ávinningur til lengri tíma
  • Útfærsla táknanna tekur mið af taltakti og laðar þannig fram myndun málhljóða.
  • Táknin styðja barnið í myndun setninga.
  • Notkun TMT hefur í för með sér meiri og markvissari boðskipti.
  • Notkun TMT eflir sjálfstæði og lífsgæði aukast.

Hvenær á að byrja
Ef barn greinist með frávik í þroska og búast má við röskun á tileiknun máls er mikilvægt að leita sem fyrst álits talmeinafræðings á hvort líklegt sé að TMT sé heppileg leið til að flýta fyrir og/eða styðja við framvindu í málþroska. Barnið er aldrei of ungt. Því fyrr því betra, sbr. snemmtæka íhlutun.


umfjöllun fengin af vef tmt.is,  sept. 2012

Höf: Eyrún Ísfold Gísladóttir, talmeinafræðingur, 19. júní 2002,

eyris@simnet.is; tal@simnet.is

Deildu þinni skoðun