Lærum og leikum með hljóðin

 

 

 

 

 

 

Skapa börnunum forskot í málþroska

Á lifandi og skemmtilegan hátt er börnum kennt að segja íslensku málhljóðin rétt, Þau læra hljóð íslensku bókstafanna og fingrastafrófið um leið og lestrarferlið er undirbúið. Aðferðin byggir á áratuga reynslu talmeinafræðings í starfi með íslenskum börnum.

Smáforritið er ætlað öllum barnafjölskyldum og fagfólki sem vilja veita börnum forskot á hljóðmyndun og undirbúa þau fyrir lestur. Tilvalið fyrir fjölskyldur af erlendum uppruna til að æfa og læra íslensku hljóðin.

Bækur, spil, myndaspjöld og mynddiskur eru í vörulínum Lærum og leikum með hljóðin sem nú nýlega gaf út smáforrit byggt á sama efni bæði á íslensku og ensku, hið íslenska undir nafninu Lærum og leikum með hljóðin og hið enska undir nafninu Kids Sound Lab. Smáforritið, eins og efnið allt, byggir á þeim aðferðum sem Bryndís Guðmundsdóttir hefur þróað í áratuga starfi sem talmeinafræðingur.

„Foreldrar eiga að sjálfsögðu að byrja á þeim hljóðum sem eru auðveldust fyrir börnin að mynda og röð hljóða í efninu tekur mið af því. Það er því alls ekki um hefðbundið stafrófsefni að ræða. Þetta er vinna með rétta hljóðmyndun og svokallaða hljóðkerfisvitund. Þannig byggjum við upp réttu hljóðeiningarnar sem mynda orðin í lestri og tali.” segir Bryndís.

Nánar:

Með leiðsögn talmeinafræðings er kennt hvernig má laða fram íslensku málhljóðin á réttan hátt með aðstoð þeirra Mána og Maju.
Hægt er að taka upp og hlusta á hvernig barnið segir orðin. Hægt er að fylgjast með framförum og skrá nafn, aldur og kyn þess sem æfir og vista hversu langt barnið er komið í hljóðunum. Þá má skrá athugasemdir jafnóðum og prenta út. Athugasemdir úr forritinu má senda í netpósti.

Höfundur Lærum og leikum með hljóðin, Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur, hlaut tilnefningu fyrir ,,Lærum og leikum með hljóðin” til EUWIIN viðurkenningar 2011 (European Womens Inventors and Innovation Network).
Hún byggir efnið á áratuga reynslu í starfi með íslenskum börnum. Grunnhugmyndafræðin var þróuð með Dr. Bernard Silverstein við University of Tennessee (d.2003). Uppbygging Lærum og leikum með hljóðin tekur mið af því í hvaða röð íslensk börn tileinka sér talhljóðin í máltökunni og því hvernig auðveldast er að kenna hljóðin. Hægt er að byrja skipulega á auðveldari hljóðum sem koma fyrir hjá mjög ungum börnum og halda áfram yfir í þau hljóð sem erfiðara er að segja. Þá má velja það hljóð sem æfa þarf sérstaklega án þess að fylgja röðinni með því að smella á táknmynd með vísan í hvert hljóð. Mmm…segir strákurinn sem fékk ís, Fff…fh… heyrist í reiðu kisunni o.s.frv.

Búi Kristjánsson og Halla Sólveig Þorgeirsdóttir teikna líflegar og skemmtilegar myndir sem höfða vel til barna á öllum aldri. Raddir þeirra Felix Bergssonar og Védísar Hervarar Árnadóttur í hlutverki Mána og Maju, ná listilega vel til ungra sem aldinna.

 

Lærum og leikum með hljóðin er notað víða í leik- og grunnskólum á Íslandi og er sýnt í barnaefni Stöðvar 2.

Efnistök Lærum og leikum með hljóðin byggja á samnefndum bókum og námsefni Bryndísar Guðmundsdóttur talmeinafræðings.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Barnamenningarsjóður styrktu íslenska útgáfu Lærum og leikum með hljóðin í smáforrit fyrir spjaldtölvur.

Hér er kennslumyndband um smáforritið:

Ítarefni:

Nýtist öllum börnum frá unga aldri

 

,,Smáforritið eins og allt efni Lærum og leikum með hljóðin er ætlað öllum börnum frá unga aldri langt fram á grunnskólaaldurinn. Þetta efni er ekki síst svar til foreldra sem vilja skapa börnum sínum forskot í málþroska og lestri auk þeirra sem þurfa sérstaka aðstoð,“ segir Bryndís.

 

„Í efninu er hver aðgerð ígrunduð og miðuð við það sem rannsóknir og reynsla segir okkur um hvernig börn læra og þróa tal og mál,“ segir Bryndís „Grunnefnið sem kom fyrst út árið 2008 kynnir öll málhljóðin í íslenskunni og svo bættust við sérefni með áherslu á S og R hljóðin í sér bókum. Uppröðun hljóða í efninu og allt skipulag miðar við að foreldrar geti byrjað á fyrstu blaðsíðu og fylgt efninu áfram skref fyrir skref. Fyrir tveimur arum kom út mynddiskur með öllum hljóðunum sem hefur fengið mjög góðar viðtökur og skilað börnum árangri í hljóðaleik og að ná betri framburði hljóða. Smáforritið var í raun næsta skref þegar þróun spjaldtölva fór að verða meiri og uppbygging efnisins small svo eðlilega við slíka gagnvirkni“

 

 

Undirbúningur fyrir lestur

 

Lærum og leikum með hljóðin reynist mjög vel í undirbúningi fyrir lestur að sögn Bryndísar.

 

„Börnin fara að tengja á sjón og heyrnrænan hátt bókstaf og hljóð. Tengja hljóð saman í hljóðakeðjur og umfram allt fara þau að hlusta eftir hljóðum og greina að hljóð. Þau læra líka snemma að vita hvort að hljóð er fremst í orði, aftast eða í miðju. Allt hjálpar það í stafsetningu síðar. Í Hljóðalestinni byggi ég enn frekar á hljóðkerfisþáttum með sömu grunnaðferð,“ segir Bryndís sem byggir Hljóðalestina þannig upp að um leið og unnið er með rím er unnið með öll möguleg hljóðavíxl hjá börnum.

 

Barn sem hefur sýnt erfiðleika við hljóðmyndun á oft líka erfitt með að stafsetja rétt þegar það fer að skrifa. Í tilraunaferli með efnið síðasta haust hef ég séð gífurlega góðar framfarir í þessum þáttum hjá skólabörnum.“

 

 

Mikilvægt að fá ráðgjöf með fyrstu skrefin

 

Bryndís Guðmundsdóttir lærði talmeinafræði á sínum tíma í Bandaríkjunum. Þegar heim kom reyndi hún fljótt að námsefni vantaði. Hún fór því í að útbúa námsefni sem hefur þróast mikið á sl. 25 árum. „Það er mjög algengt að foreldrar leituðu til mín eftir ráðgjöf í framhaldi af greiningu á framburði barna sinna. Oft er hægt að liðsinna í einum tíma og gefa ráð en það var alveg ljóst að það vantaði efni,” segir Bryndís og heldur áfram.

 

Sem foreldri sjálf veit ég líka af eigin reynslu að það skiptir miklu máli að fá góða ráðgjöf með fyrstu skrefin. Ég hafði sjálf útbúið heilmikið af efni, litlum bókum og spjöldum sem ég plastaði fyrir mín eigin börn og hafði það í huga þegar ég gerði Lærum og leikum með hljóðin bækurnar,” segir Bryndís um námsefnið sem fylgja þykk spjöld og plasthúðaðar síður. Þær leyfa litlum fingrum ítrekaða skoðun og leggja beinlínis upp með að foreldrar byrji snemma að skoða bókina með börnum sínum og leika með hljóðin. Efnið endist því vel hjá hverri fjölskyldu.“

 

 

Lítið málsamfélag þarf vandað efni

 

Sem fyrr segir starfa þær mæðgur Bryndís og Védís Hervör saman að kynningu og útfærslu á verkefninu. Sjálf segist dóttirin hafa kynnst þessu efni í sinni æsku og reynt það svo á eigin börnum. Þegar kom svo að því að gera mynddisk í tengslum við efnið hafi böndin borist að sér,sem tónlistarkonu.

 

Ég þekki efnið mjög vel. Er þó alltaf að átta mig betur á því hvað foreldrar geta gert mikið sjálfir með börnunum sínum. Lærum og leikum með hljóðin er stórkostlegt efni, vandað og úthugsað fyrir okkur foreldra sem vilja örva tal og mál barna okkar og gefa þeim forskot á lestrarnámið,“ segir Védís.

 

Allt sem við gerum með börnum okkar á því næma máltökuskeiði sem forskólaaldurinn er, skiptir miklu máli. Í okkar litla íslenska málsamfélagi er mjög mikilvægt að vandað og metnaðarfullt efni sé búið til af fagfólki sem þekkir til og getur leiðbeint til almennings. Það er ómetanlegt að hafa svona góða leiðsögn sem foreldri. Með tilkomu smáforritsins höfum við eiginlega náð nýjum hæðum í að koma efninu út á hinn almenna markað og möguleikar í notkun efnisins eru sífellt að aukast með nýrri tækni. Gagnvirknin verður í fyrirrúmi og ýtir við foreldrum að leggja meira upp úr hljóðmyndun með börnunum sínum.”

 


Hér má sjá nemanda í öðrum bekk í Klettaskóla nota Lærum og leikum með hljóðin:

Comments are closed.