Málþroski

Fyrstu hljóð barnsins er yfirleitt grátur sem það notar til að tjá ýmsar tilfinningar, t.d. svengd, vanlíðan, eða bara að það vill láta halda á sér. Stuttu síðar fer barnið einnig að gefa frá sér vellíðunarhljóð sem er í raun fyrsti vísirinn að hjali. Þessi mammaogbarnfyrstu hljóð barnsins eru mynduð bæði með inn og útöndun og virðast vera ósjálfráð viðbrögð frá barninu.Smám saman þróast þessi hljóð út í hjal sem er meira meðvitað. Barnið fer þá að mynda ákveðin hljóð með því að nota ákveðna hluta munnsins, t.d. “ga-ga” þar sem það notar góminn, “ba-ba” og “ma-ma”, þar sem varirnar eru notaðar, og “da-da” þar sem tungan er æfð. Slíkt hjal byrjar yfirleitt um 3ja mánaða aldurinn og fyrstu samhljóðarnir sem það notar eru m, b og p.

Börnum finnst yfirleitt mjög gaman að hlusta á sig sjálf framleiða þessi hljóð og æfa sig mikið. Oft festast þau í ákveðnu hljóði í langan tíma. Síðan taka þau til við næsta hljóð og foreldrarnir halda þá oft að það sé búið að gleyma fyrra hljóðinu. Barnið hefur engu gleymt, það er bara svo upptekið við að æfa nýja hljóðið að það gamla er sett á bið, en barnið á eftir að ná í það aftur.

Á vissum aldri (oft í kringum 4-6 mánaða aldurinn) eru börn að prófa allskonar hljóð, hávaða og læti, og finnst alveg stórmerkilegt að ÞAU geti búið þessi hljóð til. Sum börn eru merkilegir hávaðaseggir á þessum aldri og gefa frá sér allskyns hviss-, hvæs-, kok- og frusshljóð, en þetta er allt þáttur í málþroska barnsins; það er bara að æfa sig. Börnum finnst einnig mjög gaman að hlusta á aðra búa til hljóð og því er mikilvægt að tala við börn, syngja fyrir þau og lesa. Þetta ýtir allt undir málþroska og orðaforða seinna meir. Það skiptir engu máli hvort þú ert laglaus eða ekki, barnið hefur samt gaman af söng þínum. Eins þykir börnum gaman að láta lesa fyrir sig þó svo þau skilji ekki nærri því allt sem sagt er. Mun mikilvægara er að tala með blíðri röddu. Lítil börn eru sjaldnast hrifin af hvellum, háum og snöggum hljóðum, og eins eru þau yfirleitt meira hrifin af björtum og ljósum röddum heldur en dimmum og grófum.

Börn eru líka fljót að læra að túlka mismunandi raddblæ og skynja t.d. hvort röddin er reið, hrædd eða blíð og góð. Eftir sem tíminn líður fer hjalið að verða enn meira meðvitað og börn fara að herma eftir hljóðum í umhverfinu, aðallega frá foreldrumtalk2 eða öðrum umönnunaraðilum. Öll börn hjala til að byrja með, en ef þau fá enga örvun frá umhverfinu þá hættir þetta hjal.

Heyrnarlaus börn hjala t.d. fyrstu vikurnar, en þar sem þau síðan ekki skynja hljóð frá sjálfum sér eða umhverfinu hætta þau því smám saman.

Fyrstu orð barnsins koma oftast á tímabilinu 10-18 mánaða og eru mjög einföld. Þetta eru oftast eins atkvæða orð (datt) eða tveggja atkvæða þar sem sama hljóðið er endurtekið (mama, baba). Eitt orð getur þýtt mjög margt. “Mamma” getur t.d. þýtt “mamma ég er svangur” eða “mamma viltu halda á mér” o.s.fr. Á þessu tímabili er líka algengt að börn “bulltali”, þ.e noti langar orðarunur án þess að um sé að ræða eiginleg orð og noti hrynjandina í málinu eins og um sé að ræða raunverulegar setningar.

Fyrstu alvöru orð barna eru oftast heiti á hlutum eða fólki (nafnorð) og síðan bætast sagnorð við. Barnið fer þá að mynda tveggja orða setningar, t.d. “bolti datt” eða “mamma súpa”, en algengt er að börn séu tæplega tveggja ára gömul þegar þau fara að mynda slíkar setningar. Börn einfalda yfirleitt öll orð sem þau segja, t.d. þannig að þau nota sama myndunarstað í munninum fyrir alla samhljóða í orði. Orðið “takk” kemur því oft út hjá börnum ýmist sem “tatt” eða “kakk”. Einnig stytta þau samhljóðaklasa í upphafi eða enda orðs, þannig að í stað þess að segja t.d. “mjólk” segja þau “mókk”, “brauð” verður “bau” og “smekkur” verður “mekku”. Einnig nota börn frekar mjúka samhljóða heldur en harða og segja þá t.d. “butti” í stað “putti” eða “gaka” í stað “kaka”. Þegar barn byrjar að tala getur eitt orð þýtt mjög margt. “Epli” getur þannig táknað alla ávexti, “pabbi” getur náð yfir alla karlmenn sem eru á svipuðum aldri og pabbi barnsins, og “bolti” getur náð yfir alla hnöttótta hluti. “Súpa” getur þess vegna þýtt “að drekka”, “glas”, “mjólk”, “vatn” eða hvaða drykkur sem er. Smám saman fer barnið síðan að flokka orðin betur og koma með nákvæmari heiti og skilgreiningar á hlutunum.

Um tveggja ára aldur ætti barn að kunna u.þ.b. 200 orð.  Foreldrar ættu að passa sig á að vera ekki sífellt að leiðrétta börn þó þau beri ekki orðin rétt fram í fyrstu eða noti ekki nákvæmlega rétta heitið á einhverjum hlut. Oft er betri leið til að leiðrétta einfaldlega að endurtaka setnginuna til barnsins þannig að það heyri barnatalhvernig rétta aðferðin er. T.d. ef barnið segir “mamma gaka botti”, þá geturu svarað “já, mamma (ætlar að) taka boltann”. Einnig er gott að venja sig á að nota heiti hlutanna en ekki hann/hún/það til að byrja með svo barnið læri fyrr þessi heiti og skilji betur hvað átt er við. Það er auðveldara fyrir lítið barn að skilja hvað átt er við ef sagt er “náðu í boltann” en ef sagt er “náðu í hann”. Eins er betra að nota “mamma” eða “pabbi” í stað þess að segja “ég”, og nota nafn barnsins í stað “þú”. Ekki samt falla í þá gryfju að tala barnamál við barnið og einfalda málið um of, þá lærir barnið ekkert nýtt. Þó svo barnið sjálft segi “dudda” og “botti” ættu foreldrar ávallt að segja orðin skýrt, þ.e. “snudda” og “bolti”.

Tveggja og hálfs árs gamalt barn er farið að nota málið töluvert mikið og ef barnið þitt er ekki farið að tala neitt á þessum aldri er rétt að leita ráða hjá sérfræðingi. Barnið gæti t.d. verið heyrnarskert eða átt við talmein að stríða og mikilvægt er að byrjað sé sem fyrst að aðstoða barn við mál og tal ef það á við slíkan vanda að stríða.

Þriggja ára barn er farið að skilja og nota mun flóknari orð og setningar. Það skilur hugtök á borð við “undir”, “í”, “á bak við” og lærir einnig kyn orðanna. Litirnir fara smám saman að lærast og einnig tölurnar. Barnið lærir talnarunur fyrst, s.s. numbers1-2-3-4-5, án þess að það átti sig endilega strax á þvi hvað hver tala merkir í raun mikinn fjölda. Það fer að nota persónufornöfn (þú, ég, hann, hún) og fleirtölu. Spurningar sem byjra á “hvar”, “hvenær” og “hvernig” verða mjög algengar og börn á þessum aldri tala oft mjög mikið. Oft er ákafinn svo mikill að barni stamar í byrjun setningar, en það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Barnið er einfaldlega að flýta sér aðeins of mikið, fer svo að segja fram úr eigin getu, og nær ekki alveg tökum á setningunni strax.  Mikilvægt er að gefa barninu bara tíma til að segja setninguna sína, en ekki leiðrétta það um leið eða fylla í eyðurnar fyrir það.

Um fjögurra ára aldurinn er ímyndunarafl barna oft í fullum gangi. Þau hafa gaman af að segja alls kyns sögur og gera ekki alltaf greinarmun á ævintýri og veruleika. Ýmis gróf og ljót orð vekja oft mikinn áhuga þeirra á þessum aldri og einnig hafa þau gaman af að búa til ný orð og bulla mikið. Þau spyrja líka oft spurninga sem þau vitaafhverju mæta vel svörin við. “Af hverju” er orðasamsetning sem foreldrar heyra t.d. mjög oft á þessu tímabili. Börn á þessum aldri eru komin með nokkuð góð tök á málinu og hafa einfaldlega mikla ánægju af að nota það til hins ítrasta.

Við fimm ára aldur hættir orðaforðinn að aukast eins hratt og áður. Börnin fara að verða fullorðinslegri í tali og orðaflaumurinn minnkar. Setningar eru orðnar flóknar og málfræðin góð. Einnig er framburðurinn að mestu orðinn eðlilegur. Eitt það besta sem foreldrar gera til að ýta undir málþroska barna sinna er einfaldlega að gefa sérlitill.stor tíma til að tala við þau og ekki er síður mikilvægt að HLUSTA á þau. Að láta lesa fyrir sig, syngja og leika finnst langflestum börnum gaman. Endurtekningar á orðum og setningum, benda á hluti og nefna heiti þeirra, nota andheiti s.s. “lítill-stór”, kenna hvað dýrin segja o.s.fr. eru allt góðar leiðir til að ýta undir málþroska og auka orðaforða barna.

Heimildir:
Hrafnhildi Sigurðardóttir, 1998. Bæklingur um málþroska. Menntamálaráðuneytið. Reykjavík.
Miriam Stoppard, 1984. Foreldrahandbókin. Iðunni. Reykjavík

 

Myndir af vefsíðum:

Epli , Tölur Barn hjalar móðir og barn

 

 

Deildu þinni skoðun