Emma Lilja og Tobii augnstýribúnaður

IMG_0542Emma Lilja Halldórsdóttir er nemandi í Klettaskóla. Hún er með Rett heilkenni.  Emma Lilja er ljúf og yndisleg stúlka. Hún tjáir sig eingöngu með ánægju og óánægju hljóðum en notar engin orð. Hendurnar setur hún  gjarnan í munninn og til að verja þær notar hún hulsur yfir þumal og vísifingur. Hún notar hendurnar ekki til að vinna með. Hún er broshýr og dugleg að sýna hvað henni finnst skemmtilegt. Hún getur gengið óstudd en lítið þarf til svo hún missi jafnvægið og því mikilvægt að vera í viðbragðsstöðu og vera tilbúinn að  grípa hana  ef svo ber undir.

Emma Lilja hefur frá upphafi skólaárs 2014 -2015 fengið að kynnast Tobii augnstýribúnaði.  Unnið hefur verið með Look to learn leikina.  Þegar hafist var handa í haust hafði hún takmarkaða hugmynd um hvað hún ætti að gera. Hún var óvirk og sýndi lítinn áhuga á því sem fyrir hana var lagt. Prófað var að hafa mismunandi lýsingu í stofunni. Einnig var skoðuð mismunandi stilling á tölvunni hvað varðar fjarlægð og hæð í því samhengi að reyna vekja hjá henni áhuga.

Eftir að hafa unnið með búnaðinn að meðaltali þrisvar í viku í tvo mánuði urðu tímamót því þá var eins og hún áttaði sig á því að hún gæti haft áhrif á það sem fram fór í tölvunni fyrir framan hana. Þetta var stórkostleg upplifun sem seint mun gleymast.  Hún sýndi sterk viðbrögð og varð einstaklega glöð en jafnframt einbeitt og dugleg að hreyfa augnbendilinn.

Hér má sjá þróunina fyrstu tvo mánuðina:

Hér má sjá fleiri myndbönd sem sýna þróunina sem orðið hefur á þessu tveggja mánaða tímabili.

Í upphafi 

í september 

í október 

í nóvember

Næsta skref er að kynna Tobii tjáskiptaforritið fyrir Emmu Lilju með það að leiðarljósi að kenna henni að tjá sig með einföldum táknum og/eða myndum.

 Staðan árið 2021

Emma Lilja á nú sína eigin augnstýritölvu sem fest er á stólinn hennar.  Hún notar tjáskiptaforritin Communicator 5 og Snap Core First. Hún tjáir sig með fyrirfram tilbúnum setningum og stökum orðum.  Hún svarar já og nei spurningum með því að horfa á já og nei spjöld eða notar já/nei síðuna í tjáskiptaforriti til að svara.  Hún hefur tekið miklum framförum í gegnum árin og ljóst að augnstýribúnaður hefur skipt sköpum fyrir lífsgæði hennar.

 

 

 

 

Comments are closed.